27.4.2007 | 11:56
Ha, er spilling á Íslandi?!
Mér finnst alltaf hlægilegt þegar Ísland kemur vel út úr könnunum á spillingu í stjórnmálum.
Það hefur aldrei farið mikið fyrir pólitískri ábyrgð hér á Íslandi. Fram á 8. áratug síðustu aldar var fyrirgreiðslupólitíkin sem var stunduð hér á landi þvílík að þeir sem höfðu engin tengsl innan flokka áttu hreinlega erfitt með að fá afgreiðslu í kerfinu og flestum fannst þetta bara eðlilegt! Það var varla ráðið í embætti öðruvísi en að vinur, frændi eða hálffrændi uppeldisbróður afasystur besta vinar fengi stöðuna. Sem betur fer breyttist þetta en spilling og fyrirgreiðslupólitík hafa alls ekki horfið úr íslenskum stjórnmálum.
Það að beygja reglur sem greiða fyrir vini og vandamenn er spilling (flokkast sem smáspilling samkvæmt skiptingu Arnolds Heidenheimers en spilling engu að síður). Það að Jónína segist ekki hafa vitað neitt eða beitt sér sérstaklega í þessu máli þvær ekki spillinguna í burtu. Reglur voru beygðar, hvort sem hún kom nálægt því eða ekki.
Í ritinu Ábyrgð, valdsvið og stjórnunarumboð Forstöðumanna ríkisstofnana sem Fjármálaráðuneytið gaf út árið 2000 er fjallað sérstaklega um ábyrgð ríkisstarfsmanna og þar segir:
Ríkisstarfsmaður:
-er ábyrgur fyrir ákvörðunum, árangri og háttsemi
-er óhlutdrægur og hlutlaus
-gætir sjónarmiða um lögmæti, hlutlægni, jafnræði og meðalhóf
-gætir sjónarmiða um aðgang að upplýsingum og gegnsæi stjórnsýslunnar
Hvað af þessu á við um afgreiðslu þessarar umsóknar?
Í ritinu segir einnig að:
"Reynsla annarra þjóða sýnir að vitneskja um ákvörðun skiptir takmörkuðu máli þegar meta á hver beri ábyrgð. Ef ráðherra ber aðeins ábyrgð á því sem hann hefur vitneskju um getur það leitt til þess að hann eða aðrir ákveði að hann fái ekki upplýsingar um tilteknar ákvarðanir. Augljóst er að slíkt getur ekki leitt til ábyrgrar ákvarðanatöku."
Þetta mætti auðveldlega heimfæra upp á þetta mál þar sem hver virðist benda á annan og halda að ef þau nái að sannfæra okkur almenning um að enginn hafi vitað neitt þá sé þetta einfaldlega engum að kenna (t.d. Guðrún Ögmundsdóttir, sjá hér).
En það er svo augljóst að þarna er um eitthvað allt annað en eðlileg vinnubrögð að ræða að það er einfaldlega barnalegt og heimskulegt af fullorðnu fólki að láta svona, ef maður er ekki tilbúinn til að standa með ákvörðunum sínum þá á maður ekki að taka þær.
Í sömu heimild segir einnig um pólitískar afsagnir:
"Afsögn ráðherra hefur þá þann tilgang að sannfæra almenning um að vanræksla eða mistök séu tekin alvarlega og hafi afleiðingar. Með þessu móti er skaði lágmarkaður og traust endurbyggt. Afsögn ráðherra þarf ekki að þýða endalok stjórnmálaferils. Mörg dæmi eru um að ráðherrar sem hafa þurft að víkja hafi síðar fengið ný ráðherrastörf."
Hvenær voru vanræksla og mistök síðast tekin alvarlega og höfðu afleiðingar hér á Íslandi?
Annars vorkenni ég helst stelpunni að vera allt í einu orðin að pólitísku bitbeini í kosningabaráttu í ókunnugu landi...
Nefndarmenn hafi tekið fram að þeim hafi verið ókunnugt um tengsl Jónínu og umsækjandans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2007 | 17:20
Opinber trúleysingi skrifar...
Ég gerði það loksins í dag. Ég sagði mig úr þjóðkirkjunni og er nú skráð utan trúfélaga. Þetta er eitthvað sem hefur verið á dagskránni hjá mér í mörg ár, einfaldlega vegna þess að ég er ekki trúuð og nýti mér ekki þjónustu kirkjunnar. Þetta hefur þó hingað til ekki verið neitt stórmál fyrir mér, mér hefur bara einhvern vegin ekki fundist þetta skipta miklu máli en núna er ég endanlega búin að fá nóg.
Ég kann foreldrum mínum bestu þakkir fyrir að hafa skírt mig inn í kirkjuna, það var þeirra val og ég virði það en núna er komið að mér að velja.
Þegar ég var yngri las ég biblíusögur af miklum móð (m.a. stórar, myndskreyttar bækur í bláu bandi sem heita Sögur biblíunnar og voru í 10 bindum) en ég las þær alltaf sem sögur, sumar þeirra finnst mér alveg trúlegt að hafi gerst að einhverju leyti í raun og veru, sérstaklega þær sem fjalla um venjulegt fólk sem sinnir kindunum sínum í ró og næði í afskekktum sveitum og túlkar svo náttúruatburði sem eitthvað guðlegt. Restin af biblíunni er í mínum huga ekkert nema frumstæðar tilraunir manna til að útskýra náttúruleg fyrirbæri sem þeir gátu ekki skýrt öðruvísi þar sem vísindi voru einfaldlega ekki komin á það stig að það væri hægt. Og ekki bara í biblíunni heldur flestum öðrum trúarbrögðum líka, hvað er Ásatrú annað en náttúruskýringar?!
Það sem sumir kalla Guð kalla ég eitthvað annað. Það getur vel verið að það sé til eitthvað annað tilverustig eða eitthvað æðra okkur mannfólkinu en það verður þá bara að koma í ljós, ég tel mig einfaldlega ekki hæfa til að segja til um það, hvað þá að trúa einhverjum samansoðnum kenningum um það. Fjöldi trúarbragða í heiminum er líka eitthvað sem fær mig til að efast; hvernig á maður að velja úr öllu kraðakinu það sem maður vill trúa á? Af hverju vilja gyðingar ekki trúa að Jesú hafi verið Messías en kristnir menn eru sannfærðir um það? Hvor hópur um sig telur sig hafa rétt fyrir sér en byggja trúna í raun á sannfæringum annarra, ekki neinum staðföstum sönnunum, enda eru þær ekki fyrir hendi.
En það er víst trúin í hnotskurn, ef maður er tilbúinn til að trúa á annað borð þá verður maður að trúa í blindni, láta almenna skynsemi að mestu leyti lönd og leið og rembast við að láta trúna passa inn í daglegt nútímalíf. Mér finnst það þó nokkuð augljóst að hún gerir það ekki.
Kirkjan (og þá á ég við kristna kirkju yfir höfuð; lúterska, kaþólska, rétttrúnaðar eða hvað sem þetta heitir allt saman) er í mínum augum einstaklega úrelt og skinheilagt fyrirbæri. Þrátt fyrir öll þau mannúðar- og kærleiksboð sem hún heldur fram að séu megininntak kristinnar trúar eru mörg verstu illvirki sögunnar framin í nafni trúarinnar og mannvonskan sem þrífst hjá þeim sem breiða yfir sig hempu kirkjunnar og hvítþvo sig svo með syndaaflausnum og bænum er ótrúleg. Krossferðirnar, misnotkun á börnum, ótrúlegt harðræði í klaustrum, munaðarleysingjahælum, meðferðarstofnunum og á öðrum stöðum þar sem trúræknu fólki hefur verið falin ábyrgð á þeim sem minna mega sín og svo ekki sé nú minnst á ástandið í heiminum í dag, stríð og misþyrmingar í nafni trúarinnar á alla kanta. Allir hafa rétt fyrir sér og skjóta þess vegna á nágrannann af því að hann segir eitthvað annað.
Elska skaltu náungann eins og sjálfan þig stendur einhvers staðar. Þeir sem eru sannkristnir fara svo sannarlega ekki eftir þessu því hjá hinum heittrúuðu er oft að finna mestu mannfyrirlitningu sem hægt er að sjá í þessum heimi; í þeirra augum eru allir úrhrök sem eru ekki eins og þeir. Þeir eru hrokinn uppmálaður og líta niður á aðra fyrir að velja öðruvísi líf en þeir sjálfir. Skilur þetta fólk ekki að það eru ekki allir eins? Ef ég set þetta upp í eins einfalda mynd og ég get þá finnst sumum rauðar rósir fallegri en bleikar og sumum finnst bleikar vera fallegri en rauðar. Það er ekkert rétt eða rangt í þessu samhengi, heldur bara eitthvað sem er ekki eins og þú. Og það er allt í lagi að vera ekki eins og þú!
Það sem fyllti mælinn hjá mér í dag var niðurstaða á kirkjuþingi um hjónavígslu samkynhneigðra. Eina jafnan sem er rétt frammi fyrir guði þjóðkirkjunnar er víst tippi+píka=sönnástaðeilífu. Þetta er svo mikil hræsni að það hálfa væri nóg. Fyrir rúmum 2000 árum þegar biblían og fylgirit hennar voru skrifuð var samfélag manna allt öðruvísi. Það voru örfáir sem kunnu yfir höfuð að lesa og skrifa og þeirra skoðanir lita auðvitað allt sem við lesum úr þessu í dag. Við vitum ekkert hvert viðhorf almennings var áður en einhverjum datt í hug að skrifa þetta niður á blað. Kannski voru allir bara í gúddí fíling með sína samkynhneigð eins og Grikkir til forna en svo kemur einhver sem titlar sig æðsta prest og með einu pennastriki gerir hann þetta að synd. Nei, ég get ekki trúað því að eitthvað sem var sett á blað fyrir 2000+ árum síðan sé eitthvað sem á að lifa eftir í dag. Við verðum þá alla vega líka að útskúfa örvhentum og hætta að borða svínakjöt...
Ég sá líka frétt þess efnis í dag að nú væri búið að fá fermingarbörn landsins til að þýða þekkt biblíuvers yfir á SMS mállýsku svo fólk gæti fengið þau send í gsm símann sinn. Þetta sýnist mér vera veik tilraun kirkjunnar til að reyna að búa til einhverja hipp og kúl ímynd til að ná til fólks. Vitiði hvað væri svo miklu meira hipp og kúl? Að lifa í alvörunni eftir því umburðarlyndi sem prestar eru svo gjarnir á að tala um í ræðum sínum. Að mismuna ekki fólki á grundvelli kynhneigðar. Að bjóða alla velkomna í kirkjuna sem vilja tilheyra henni. Líka homma og lesbíur.
Í staðinn ætla þeir að hrækja á yfirborðið og pússa það upp en fyrir neðan fína, tæknilega yfirborðið er þetta ennþá íhaldssamasta og hatursfyllsta stofnun heims.
Kirkjan spyr ekki karl og konu sem leita til hennar hvernig kynlífi þau lifa og sér ekki ástæðu til að athuga hvort þau stundi t.d. BDSM kynlíf eða hvort þau hafi farið í threesome eða geri það einhvern tíma í annari stellingu en trúboðanum þrátt fyrir að losti sé synd. Dauðasynd jafnvel. Nei, samkynhneigðir eru þeir einu sem eru skilgreindir eftir þessari allra persónulegustu og innilegustu hegðun okkar manna og það er skömm að því að kirkjan skuli mismuna fólki á þeim grundvelli.
Svei þér þjóðkirkja, nú fékk ég nóg, ég hef engan áhuga á að tilheyra þeirri mismununar- og hatursstefnu sem þið berið á borð fyrir okkur...
P.s. ég er ekki sú eina því skv. því sem ég heyrði hjá starfsmanni Þjóðskrár sem tók við úrsagnareyðublaðinu mínu er búin að vera mjög mikil umferð hjá þeim í dag og síðustu daga af fólki sem segir sig úr kirkjunni. Ég vona að það sé líka af ofangreindum ástæðum...
Tillaga um hjónavígslu samkynhneigðra felld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
8.3.2007 | 23:07
Hvernig á jafnréttið að vera?
Jafnréttismál eru greinilega heit til umræðu um þessar mundir. Ég var rétt að byrja að ná mér eftir stóra klámráðstefnumálið þegar núna blossa upp á öðru hvoru bloggi umræður um forsíðuna á fermingarbæklingi Smáralindar. Ég heyrði einmitt í henni Katrínu Önnu á Bylgjunni þegar ég var að keyra heim í dag (skellti mér á bókamarkaðinn eftir vinnu, mjög nauðsynlegt svona rétt fyrir verkefnatörn í skólanum!) þar sem var farið yfir stöðuna eftir þetta nýjasta útspil í umræðunni.
Ég verð að segja það að ég er steinhætt að kalla mig feminista eftir þessa síðustu daga og vikur. Auðvitað styð ég jafnrétti og það skal enginn segja mér að ég sé annars flokks manneskja, bara vegna þess að ég er kona en það skal heldur enginn segja mér að ég EIGI að hugsa svona og hinsegin AF ÞVÍ AÐ ég er kona. Það er alveg jafn asnalegt. Það er samt það sem ég fæ á tilfinninguna þegar ég hlusta á og les skrif þeirra sem kenna sig við Feministafélagið. Að allar konur EIGI að hugsa á sömu nótu.
Sorrí, en ég er bara ekki hrifin af slíku. Allar konur þurfa ekki að hugsa eins og sameinast á móti óvinunum sem eru fundnir (eða búnir til) í hverju horni. Meira að segja á ljósmyndum. Af því að einhverjir gætu hugsanlega, mögulega séð í þeim táknmyndir sem koma fram í klámi. Það sagði Katrín Anna alla vega í viðtalinu á Bylgjunni. Og það er víst ekki vandamál þeirra sem sjá eitthvað furðulegt út úr þessum myndum, ó nei, það er víst vandamál okkar hinna að finnast þetta ekkert athugavert. Þarna virðast okkar viðbrögð EIGA að vera það sem þeim finnst rétt.
Samkvæmt því sem þarna kom fram verður þetta skeytingarleysi okkar, að hugsa ekki um það að einhverjir gætu hugsanlega, mögulega túlkað þetta sem tilvísun eða tákn um klám, til þess að klámvæðingin kemur til með að sigra heiminn. Það að fólk skuli ekki hugsa um klám eða sjá klám í hverju horni á sumsé eftir að steypa okkur öllum í glötun. Ég frábýð mér svona hugsunarhátt og vísa aftur á stórgóða grein Nornarinnar þar sem hún veltir fyrir sér af hverju klámvæðingin svokallaða stafar.
Í Íran mega konur ekki koma saman til opinberra mótmæla og er miskunnarlaust hent í fangelsi fyrir það eitt að tjá sig á götum úti og fyrir dómi vegur vitnisburður karla meira en vitnisburður kvenna. Það eru mál sem þarf að berjast fyrir og breyta. Ég fæ stundum á tilfinninguna að hér á landi sé verið að búa til forréttindavandamál til að takast á við. Við höfum það raunar mjög gott, almennt eru konur ekki undirokaðar hér á landi þótt það vanti herslumuninn upp á launamál og fleira en með þessari skiptingu í kvenna- þetta og karla- hitt er verið að skapa fleiri vandamál en koma til með að leysast með þeirri aðferð. Karlar eru ólíkir innbyrðis, rétt eins og konur eru ólíkar innbyrðis. Við höfum einfaldlega öll mismunandi skoðanir og sýn á lífið, burtséð frá því hvort við horfum með augum karls eða konu.
Hættum að birta viðtöl við konur sem læra rafvirkjun. Já það eru fáar konur í rafvirkjun en það er ekkert merkilegt við það að kona sé rafvirki. Hættum að koma fram við karlmenn sem vinna á leikskóla eins og þeir séu barnaníðingar eða stórskrítnir. Mér finnst rökrétt að þegar við hættum að fókusa á það að val einstaklings gangi gegn staðalímyndum þá hættum við smátt og smátt að taka eftir þessum staðalímyndum. Þegar það er minnst á þessar fyrirframgefnu ímyndir, þótt það sé verið að tala um að brjóta þær, þá eru þær styrktar. Þegar það er bent á það að kona sé rafvirki eða karlmaður leikskólakennari, þá viðheldur slík framsetning þeirri skoðun að það séu í raun bara karlar sem vilji vera rafvirkjar og konur leikskólakennarar og að þessir tilteknu einstaklingar séu bara frávik. Með öðrum orðum; með því að fjalla um frávikin á þessum nótum erum við sumsé að gera þau að ennþá meiri frávikum og viðhalda þar með norminu.
En ég hef sagt það áður og segi það aftur, konur þurfa ekki að standa saman, það þurfa allir að standa saman sem einstaklingar. Það að skipta þjóðfélaginu í tvennt og segja annað hvort ertu með okkur eða á móti er ávísun á tapaða baráttu. Það að setja lög (sem yrðu afar umdeild ef þau yrðu einhverntíma sett) um jafnt hlutfall kvenna og karla er að mínu mati ekki rétta aðferðin, það getur alveg verið að það myndi virka ef lögunum yrði framfylgt eins og er gert í Noregi (þar sem er búið að binda í lög að í stjórnum hlutafélaga verða 40% stjórnarliða að vera konur, annars má ríkið leysa félagið upp) en ég held að það myndi skapa spennu og vandamál og gera þannig minna gagn en ógagn.
Ég las pistil í dag á netsíðu, alls ótengdri jafnrétti og þessu rausi mínu en í honum var þessi áhugaverða setning: Jafnvægi er ekki jafnrétti. Mér finnst þetta í raun stórmerkileg hugsun þegar maður setur þetta í samhengi við umræðuna undanfarið, jafnrétti verður ekki endilega náð þótt konur setjist í helming þeirra stóla sem í boði eru á þingi og í stjórnum og séu þar með jafnar á vogaskálum kynjasýnarinnar. Það er jafnvægi, ekki jafnrétti...
Bloggar | Breytt 9.3.2007 kl. 15:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.2.2007 | 19:54
Sniðugt...
...er hægt að fá þessa blöndu til heimilis- og einkanota?! Það er hræðilegt að koma heim þegar sólin skín svona lágt á lofti, hvert einasta rykkorn í loftinu jafn áberandi og gulur túlípani í rauðum rósavendi. Og ryk sem svífur í loftinu hlýtur að vera svifryk...
Ryk út um allt og þvottavélin réðist á mig með bláum blossa þegar ég ætlaði að setja hana af stað. Mér líður ekki mjög húsmóðurlega í dag...
Götur í Reykjavík rykbundnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.2.2007 | 11:24
O jæja...
Það fer pínulítið í taugarnar á mér að ég skuli vera meira sammála Heimdellingum en Vinstri Grænum, sem hefur verið flokkurinn "minn" undanfarin ár. En ég neita því ekki að mér finnst þeirra yfirlýsing meika meira sens heldur en að frelsa ástina með því að hafna klámi.
Tvö mál hafa fengið mig til að endurskoða hug minn til VG en þau eru tillaga þeirra um kynjakvóta í stjórnmálum og stjórnum fyrirtækja og fyrrnefnd yfirlýsing á landsfundi. Hvað kemur út úr þeirri endurskoðun er ekki komið endanlega í ljós, almennur málflutningur annarra flokka hefur hingað til ekki heillað mig. Nú þarf sumsé að byrja að sigta úr kosningamálflutning og alvöru málflutning, úúúú hvað ég hlakka til...
-
-
-
-
NOT!!!
Heimdallur hvetur stjórnvöld til að hafa í heiðri hefðir réttarríkisins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.2.2007 | 11:25
Ótrúlegt!
Bandaríkjamenn eru svolítið eins og hrekkjusvínið á leikskólanum, kasta steinum í alla en ef einhver kastar á móti þá verða þeir brjálaðir og klaga og plotta hefnd á morgun.
Ég held að það hljóti að koma að því að alþjóðasamfélagið losi sig undan ægivaldi Bandaríkjanna, það verður eiginlega að gera það því Bandaríkin eru engan vegin í takt við hugsunarhátt annarra þjóða og það er eiginlega stórhættulegt. Nú er ég ekki með hlutfallstölur á hreinu en mér sýnist, þegar maður fer yfir söguna, að Bandaríkjamenn hafi komið beint eða óbeint við sögu í flestum stríðsátökum síðari tíma (þar sem ekki er um að ræða borgarastyrjaldir). Þvílíkur árangur hjá þjóðinni sem telur sig samt í alvörunni vera heimsins bestu fyrirmynd.
En mottóið þeirra er auðvitað "Do as we say, not as we do." Það hefur aldrei þótt vænleg stefna í uppeldismálum, hvað þá alþjóðastjórnmálum...
Bandaríkin hafna því að hætt verði að nota klasasprengjur í stríði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.2.2007 | 11:01
Sem minnir mig á...
Hvar gisti hann Ron Jeremy þegar hann kom til Íslands? Hvar verslaði hann? Fór hann í Bláa Lónið? Hafa feministar og aðrir mótmælendur kláms átt viðskipti við þá staði sem hann steig fæti á???
Annars er það þessi setning sem fer pínulítið í taugarnar á mér:
Guðrún segir að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri hafi strax brugðist við af mikilli röggsemi og lýst því yfir að Reykjavík vildi ekki hafa svona samkomur innan borgarmarkanna.
Er Vilhjálmur Reykjavík? Getur hann talað svona fyrir hönd íbúa heillar borgar sem hefur svo augljóslega afskaplega skiptar skoðanir í þessu máli? Það var aldrei gerð nein könnun á afstöðu fólks svo að hann hefur engar forsendur til að fullyrða það að Reykvíkingar (eða Reykjavík, þarna virðist borgin vera persónugerð) hafi eina augljósa skoðun umfram aðrar í þessu máli.
En nei, þarna situr hann með tæpasta meirihluta borgarstjórnar í langan tíma og lýsir því yfir að hans skoðun sé skoðun allra. Þessir pólitíkusar eru svakalegir þegar þeir taka sig til...
Stígamót segja þjóðina hafa staðið saman og hafnað kláminu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.2.2007 | 20:52
Já, horfum bara á Húsið á sléttunni í staðinn...
Ég er að hugsa um að boycotta Hótel Sögu fyrir að vera teprur.
Klámbransinn er bara þannig að sumir framleiðendur eru með allt sitt á hreinu, fara eftir lögum og reglum og gera allt til að halda í sín leyfi. Þessi hluti klámiðnaðarins er nákvæmlega það, iðnaður þar sem eftirlit er haft með framleiðslufyrirtækjum, leikarar eru skyldaðir til að fara í alnæmispróf einu sinni í mánuði og ef einhver undir lögaldri (18 ára) verður uppvís að því að leika í klámmynd er ekki bara viðkomandi sem er refsað heldur er framleiðslufyrirtækið sektað og því jafnvel lokað.
Það var þessi hluti sem var á leiðinni hingað til lands. Fyrirtækin sem eru á gráum svæðum, jafnvel svörtum eru nú ekki vön því að gera hlutina svona opinbera, hóa saman hundruðum manna, auglýsa á opnum vefsíðum og þar fram eftir götunum. Að bendla þennan hóp við barnaklám og annað ólöglegt athæfi er rógburður sem ég hef hvergi séð rökstuddan nema með dylgjum um að það hljóti að vera hægt að komast að slíku efni í gegnum tengla á heimasíðu. Enginn hefur birt slíkan tengil, enda hef ég skoðað heimasíðuna og ekki fundið neitt slíkt sjálf og tel þetta því afar hæpna fullyrðingu. Það næsta sem ég hef komist er að sjá texta (sem Katrín Anna, feministaforkólfur, hefur birt á sinni síðu) með lýsingu á fantasíu um barnapíur. Engar myndir fylgdu með af viðkomandi barnapíum svo að ég veit ekki hvort það er nokkuð athugavert við þessa fantasíu mannsins, ég las textann og ákvað að ég væri ekki með nægar upplýsingar til að dæma um siðferðisgildi hans án þess að hafa frekara samhengi í hlutunum. Út frá restinni af síðunni að dæma er þetta fyrirtæki sem er rekið í samræmi við lög og reglur, leikarar í myndunum átján ára og eldri og svo framvegis.
Það sem fer mest í taugarnar á mér er að það er allt sett undir sama hatt í þessari umræðu og þær konur (því það hafa mest verið konur og einstaka pólitíkusar sem halda að þeir fái meðvind með því að taka undir) sem hafa fjallað um þetta hafa dregið nauðugt vændi, barnaklám, mansal og annan sora inn í umræðuna. Þörfin á slíkri umræðu er svo sannarlega til staðar, því það er deginum ljósara að margir eru fastir í eymdarneti vegna slíks, en að yfirfæra hana yfir á það fólk sem ætlaði að koma hingað fyrir opnum tjöldum, skemmta sér og sjá Gullfoss og Geysi er rugl. Já, ég ætla að segja rugl. Þetta heitir, á góðu líkingamáli, að berjast við vindmyllur. Að sjá draug í hverju horni. Að geta ekki andskotast til að athuga að það eru ekki allir eins. Sumar konur vilja fara í þennan bransa, það er engin mýta. Ég vann sjálf á nektardansstað í tvö ár og kynntist þó nokkuð mörgum stelpum, jafn misjöfnum og þær voru margar. Stelpur sem voru með bein í nefinu, stóðu á sínu og vissu hvað þær vildu voru langstærsti hópurinn af þeim sem ég kynntist. Þær völdu sér það að fara í þennan bransa og vissu alveg hvað þær voru að gera. Þetta er nefnilega eins og með mörg önnur störf, persónuleikinn spilar stórt hlutverk í því hvort maður er góður í því sem maður gerir eða ekki, ef maður er góður strippari, af hverju má maður þá ekki strippa?!
Og hvað er annars að því að vera góður klámleikari? Eða réttara sagt leikkona, því það eru jú örugglega bara konurnar sem eru kúgaðar til að gera þetta og þær enda auðvitað bara í klámbransanum í algjörri neyð að uppfylla fantasíur fyrir graða gamla kalla... Gleymum því annars bara að það eru til fyrirtæki sem framleiða klám sem er sérhæft fyrir konur (hef heyrt um a.m.k. 2 sem eru rekin af fyrrverandi klámleikkonum, þær voru ekki brotnari en svo eftir sína reynslu). Gleymum svo bara þeirri staðreynd að meirihluti fólks hefur horft á klámefni og haft gaman af. Gleymum því svo endilega að þar sem er framboð, þar er eftirspurn. Já, gleymum okkur bara í fussi og sveii og því sem við persónulega myndum aldrei gera.
Ég myndi aldrei leika í klámmynd. Það er bara staðreynd. En mér dettur samt ekki í hug að skipta mér af því hvað aðrir gera. Einstaklingur sem er kominn yfir átján ára aldur hefur allan heimsins rétt til að taka þær ákvarðanir sem honum sýnist. Ef klámiðnaðinum yrði ýtt undir yfirborðið yrði ástandið bara verra. Mér finnst eiginlega verst að sjá það viðhorf að það eigi bara að banna þetta, þá verði það ekkert vandamál. Það sem er bannað er nefnilega oft stærsta vandamálið. Fullorðið fólk á að fá að taka sínar ákvarðanir, hversu heimskulegar sem þær kunna að sýnast í augum annarra. Ég tek það fram að ég lít alls ekki á mig sem frjálshyggjumanneskju en þetta finnst mér vera augljós staðreynd.
Eins og ég sagði, það er sorglegt að nú við upphaf 21. aldarinnar skuli mansal og barnaklám vera jafnalgengt og raun ber vitni en við skulum ekki búa til óvini þar sem þá er ekki að finna.
Ef Hótel Saga tekur klámmyndir af dagskrá þá er eins gott að það verði líka tekið fyrir ofbeldismyndir hvers konar og að það verði bara ekkert á dagskrá nema Húsið á sléttunni. Það ætti ekki að fara fyrir brjóstið á neinum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
22.2.2007 | 18:10
...
Varið ykkur, nú get ég kommentað hjá ykkur öllum!
Tjah, nema náttúrulega þeim sem leyfa ekki komment. En það eru nú yfirleitt sjálfumglaðir rugludallar sem vita allt best eða rugludallar sem fatta of seint að það er fíflalegt að reyna að rífast við fólk á netinu og eru búnir að fá fullt af öðrum rugludöllum upp á móti sér...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Skoðanabloggið
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar