Afleiðingar...

Á forsíðu Mbl er fjallað um Fáskrúðsfjarðarfíkniefnafundinn í alveg svakalega mörgum fréttum sem hlýtur að þýða að þetta er alveg svakalega merkilegt.  O jæja, látum það liggja milli hluta en í einni fréttinni vakti þessi setning athygli mína:

„Það er því ljóst að margir varpa öndinni léttar yfir því að mennirnir hafi náðst, enda um gríðarlega mikið magn að ræða sem aldrei kemst til íslenskra fíkniefnaneytenda. " 

Afleiðingarnar af því að þetta kemst ekki til íslenskra fíkniefnaneytenda eru helstar þessar: framboð á markaði minnkar => verð hækkar =>aukin bíræfni í leiðum til að útvega pening eða annan gjaldmiðil fyrir efnum => fjölgun fíkniefnaskulda => aukin harka í innheimtu þeirra.  Framundan er sumsé góssentíð fyrir handrukkara og aðra sem standa aðeins ofar hinum almenna neytanda. 
Mér finnst það engin sérstök ástæða til að varpa öndinni léttar.

Ísland á aldrei eftir að vera fíkniefnalaust, reyklaust, offitulaust eða laust við nokkuð sem mannskepnunni finnst gott.  „The war on drugs" er ekki stríð gegn fíkniefnum, það er stríð gegn fólki og það er kominn tími til að flytja vígvöllinn frá dómsvaldinu og inn í heilbrigðiskerfið. Það að breyta um taktík er ekki merki um veikleika eins og yfirvöld virðast halda, það er bara svo augljóst að núverandi aðferðir virka ekki að það VERÐUR að grípa til annarra ráða.  En fólk er svo heilaþvegið af áróðri og lygum (já, ég held því blákalt fram að áróður gegn fíkniefnum sé að stórum hluta lygar) að það kemst ekki framhjá sjálfu sér til að hleypa skynsamlegri aðferðum að.  Synd og skömm.  Á meðan ráðamenn og stærstur hluti almennings lemur hausnum við vegginn er fólk þarna úti sem hefur ekkert gert af sér nema að brengla boðefnaskipti í taugakerfi sínu.  Á meðan það er í neyslu er það ofurselt duttlungum mislyndra manna, dílera og dólga, sem fer ekki vel með sálina.  Ef það verður fyrir ofbeldi eða áföllum er erfitt að leita hjálpar því það er með rautt stimpilfar á enninu sem segir: GLÆPAMAÐUR.  Og þessi stimpill lokar ansi mörgum dyrum sem væri mun betra að hafa opnar.

Tökum dæmi af stúlku sem ánetjast eiturlyfjum.  Það kemur að því að hún á ekki fyrir skammti en fíknin er sterk. Hún fer að nota líkama sinn sem gjaldmiðil, lendir jafnvel í nauðgunum og barsmíðum og alls kyns öðrum niðurlægingum.  Sjálfsmyndin segir henni að hún sé ekkert nema ómerkilegur fíkill, glæpamaður og hún endar brotin á sál og líkama og telur sér trú um að enginn muni hjálpa henni af því að hún er glæpamaður og miðað við sögur sem ég hef heyrt frá fyrstu hendi er það ekki af ástæðulausu (þrátt fyrir að það séu eflaust margir sem myndu koma henni til hjálpar þá er það samt mjög sterk upplifun í þessu ástandi að það sé ekki hægt að leita hjálpar í hinum 'venjulega' heimi).  Hvernig væri hægt að koma í veg fyrir þetta mynstur?

Ég myndi vilja byrja á því að athuga hvort hún gæti nálgast efnið sitt annars staðar.  Athuga hvort það skipti meira máli að hafa aðgengi að fíkniefnum ólöglegt og neðanjarðar (sem leiðir til aðstæðna á borð við þær sem lýst er hér fyrir ofan) eða að þeir sem verða fíkninni að bráð á annað borð geti athafnað sig ofanjarðar í samfélaginu án þess að verða fyrir niðurlægingu.  Það er að segja meiri niðurlægingu en þeirri að vera ánetjaður fíkniefnum á annað borð.  Ég hef samt heyrt þau rök að ef fíklar hefðu löglegt aðgengi að lyfjum þá væri engin hvatning fyrir þá að hætta.  WTF?!!  Heldur fólk virkilega að það sé bara tóm sæla að vera fíkill ef maður fær efnin sín?  Að einu vandamál fíkla snúist um að ná sér í næsta skammt?  Það er vissulega stór hluti af þeirra lífi en guð minn góður það er svo margt annað sem flækir lífið.  Sérstaklega í flækjuheimi fíkniefna.  

Ég vil lögleiðingu og eftirlit með fíkniefnum.  Hana, ég sagði það!  Hreinar nálar til þeirra sem þurfa á að halda og svo framvegis.  En ég er bara lítil rækja í hafsjó stórfiska sem eiga fuuuuullt af peningum og hafa áhrif og völd í samfélaginu.  Það eru þeir sjá um fjármögnun og innflutning efnanna, græða á því og sjá sér að sjálfsögðu hag í því að efnin séu ólögleg.  Enda eru það alltaf einhver smásíli sem er stungið inn, þeim stóru er alveg sama um það því smásílin bíða í röðum eftir að fá að vera næst.  Þeir sem fjármagna koma heldur aldrei beint nálægt neinu, þeir passa sig á því að skilja ekki eftir nein ummerki um veru sína í fíkniefnaheiminum. 
Þetta eru utanað séð heiðvirðir bissnissmenn sem gefa góða ímynd útávið, gefa til góðgerðarmála og styrkja ýmis samfélagsleg málefni.  Ég veit ekkert hverjir þeir eru en ég veit að þeir eru til og ég veit að þeir nota sín áhrif til að halda umræðunni í þeim farvegi sem hún er í núna.  Styrkja jafnvel forvarnarverkefni og áróður því þeir vita að hann hefur lítil áhrif hvort sem er, nema auðvitað til að styrkja skoðanir þeirra sem segja bara: „Drugs are bad, m'kay" (svo ég vitni í þekktan sjónvarpsþátt), án þess að hugsa meira um málið.
Þetta sást afar vel á dögunum þegar nokkrir menntaskólanemar skrifuðu grein þar sem fíkniefnaneytendur og efnin sjálf voru dregin sundur í háði.  Fólk hafði ekki einu sinni fyrir því að lesa greinina, það las grein um greinina þar sem ákveðið sjónarhorn var sett fram, þetta sjónarhorn styrkti þeirra eigin skoðanir og því fannst því sjálfsagt að taka undir.  En ekki að lesa greinina, nei nei, það er algjör óþarfi að skoða hlutina sjálfur ef það er einhver annar sem gerir það fyrir mann.

Þetta er að mínu mati eitt hættulegasta viðhorf einstaklinga í dag.  Þessi tregða til að kynna sér hlutina og láta í staðinn nægja að vera mataður á þeim viðhorfum sem maður 'á' að hafa. 

Eins og ég segi, fíkniefni eru og verða staðreynd en ég held að fræðsla á réttum forsendum og gott fordæmi þeirra einstaklinga sem mynda samfélagið séu mun meira virði en hræðsluáróður og fordómar gagnvart fíklum.  Hugarfarsbreytingu strax, takk!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

heyr heyr

halkatla, 21.9.2007 kl. 12:57

2 Smámynd: Thelma Ásdísardóttir

Frábær pistill hjá þér. Ég tek sérstaklega sterkt undir þetta síðasta, að við þurfum að gæta okkur á því að kolgleypa ekki bara skoðanir annarra án allrar gagnrýni. Verum óhrædd við að mynda okkar eigin skoðanir og segja þær upphátt.

Ég er þó ekki viss um að lögleyðing fíkniefna sé málið, óttast skilaboðin sem það gefur. Þetta hefur verið reynt í Hollandi og víðar, kannski spurning um að skoða hvernig það hefur komið út hjá þeim

Thelma Ásdísardóttir, 21.9.2007 kl. 13:43

3 Smámynd: Fríða Eyland

Takk fyrir góðan pistil kominn tími á þennan fyrir löngu, aftur takk.

Fríða Eyland, 25.9.2007 kl. 01:01

4 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Þetta var mjög góður pistill hjá þér.. Mér skylst að lögreglan sé engan vegin í takti við veruleikan og er sveitamenska þeirra með eindaæmum.. Fundur á þessum fíkni efnum hafði víst engin áhrif á eiturlyfjamarkaðin hérlendis og segir það meira en lítið hvað lögreglan er varnarlaus í þessari baráttu sinni. Samt er ég sammála Thelmu um að lögleiðing fíkniefna sé engin lausn við þessum vanda. Það er hægt að skoða fleirri möguleika eins og til að mynda "iyf undir læknisráði" þar sem fíklum væri gefin einhverskonar eiturlyf sem stuðluðu fyrst og fremst að koma fíklinum aftur í meðferð með einum eða öðrum hætti...

Brynjar Jóhannsson, 25.9.2007 kl. 07:23

5 identicon

Haldlagningin sjálf hafði kannski engin áhrif á markaðinn en getur verið að ef þessi risasending hefði komist á markaðinn þá hefði það haft áhrif til lækkunar og aukningar á framboði fíkniefna?  140 þúsund E-töflur???  Er unga fólkið ekki helsti markhópurinn fyrir þetta efni??

 Mér finnst fólk skrítið sem virðist eingöngu sjá það versta út úr öllu.

Pétur Arason (IP-tala skráð) 25.9.2007 kl. 08:57

6 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Gunnar Helgi Eysteinsson, 25.9.2007 kl. 14:18

7 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Frábær grein og ég stalst til að linka á hana af minni síðu.

Heiða B. Heiðars, 25.9.2007 kl. 15:01

8 identicon

Frábær grein hjá þér. Það væri gaman ef þetta myndi hrista upp í einhverjum ráðamanni.

Heiðar Már (IP-tala skráð) 25.9.2007 kl. 16:50

9 Smámynd: Einar  Lee

Meiriháttar grein og þú meiara að segja fékkst mig næstum til að skipta um skoðun mína á lögleiðingu eyturlyfja, en ekki alveg.  Það er þó alveg rétt að annann farveg þarf að finna á því hvernig vinna gegn fíkniefnum hérlendis ví það er orðið nokkuð ljóst að ekki er mikið að ganga í þessum málum í dag. 

Í viðtali á mbl.is í dag sagði yfirmaður fíknó að gæpamenn væru orðnir skipulagðir g löggan þyrft að fara að vera það líka.  Maður spyr sjálfann sig, eru yfirvöld ekki með á nótunum þegar kemur að glæpum og eru yfirvöld að reyna að forðast vandann?  Þessi grein var lýsandi dæmi um sveitamennsku lögreglunnar.

Ég styð heilshugar þína baráttu gegn hræðsluáróðrinum og með breytingum á hugarfari gegn fíklum.

Einar Lee, 25.9.2007 kl. 16:57

10 Smámynd: Benna

Frábæra grein og flottar hugleiðingar, þetta er einmitt mín reynsla þegar ég hef verið virk lít ég á sjálfa mig sem ótýndan glæpamann og algjört úrhrak sem getur hvergi leitað sér hjálpar vegna alls konar hörmunga sem ég lenti í vegna þesss að ég vissi að ég myndi alltaf fá á mig þennan stimpil og sleppti því að leita mér aðstoðar.

Nú veit ég ekki hvort lögleiðing sé málið, nú hef ég nokkra reynslu af því þannig séð ég var með ansi hjálpsaman lækni og meðvirkan sem gerði allt fyrir mig sem ég bað um, vissulega minnkaði álagið á mig að verða mér út um fíkniefni því ég fékk þau hjá honum Rítalín og Morfín, ég braut mun minna af mér og lenti sjaldnar í aðstæðum sem voru mér hættulegur en það sem þetta gerði var að það rann hreinlega aldrei af mér og ég notaði miklu meira en ég þurfti sem orsakaði að ég hrörnaði fljótt og mikið....ég veit ekki þarf að hugsa þetta mál í sambandi við lögleiðinguna það eru að sjálfsögðu kostir og gallar við þá leið.

Benna, 25.9.2007 kl. 17:42

11 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Mér finnst þetta frekar spurning um að gera þetta aðgengilegra fyrir þá sem eru djúpt sokknir frekar en lögleiða... En greinin er frábær og ekki vanþörf á nýjum hugsunahætti

Heiða B. Heiðars, 25.9.2007 kl. 19:22

12 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Þetta er afar góður pistill hjá þér. Ég er sammála þér að mörgu leyti og get alveg séð kostina við að lögleiða fíkniefni. Það eru samt skilaboðin sem scare the crap out of me. Mér finnst það hræðileg tilhugsun að lögleiða fíkniefni. Það er ein örugg leið til að fólk drepi sig fyrr en ella. Nú þegar er hrópað: afhverju er alls staðar bannað að reykja? Sígarettur eru löglegar!

hvað gerist hjá unga fólkinu ef dóp verður lögleitt? Neyslan eykst. Alveg pottþétt mál. En á móti kemur það sem þu nefnir. handrukkarar, dílerar og ''stóru kallarnir'' á bak við þá litlu fengju ekki eins mikið að gera og glæpir myndu mögulega minnka.

Æi þetta mál hefur svo margar hliðar og erfitt að sjá algjörlega fyrir hvað myndi gerast við breytingar.

Jóna Á. Gísladóttir, 25.9.2007 kl. 23:09

13 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Baldur kemur óneitanlega með nokkra góða punkta hérna fyrir ofan

Mikið væri nú gott ef það væri bara einfaldlega hægt að skipta út fólkinu sem hefur með þessi mál að gera. Það er svo sannarlega kominn tími á ný sjónarmið 

Heiða B. Heiðars, 25.9.2007 kl. 23:58

14 Smámynd: Bragi Þór Thoroddsen

Hverju orði sannara (flest).  Virkilega góður vinkill á þetta.

vcd

Bragi Þór Thoroddsen, 26.9.2007 kl. 09:47

15 Smámynd: Þarfagreinir

Jóna - gott að þú nefndir til dæmis sígarettur. Nú eru bæði áfengi og tóbak lögleg fíkniefni, en þau eru uppi á yfirborðinu, og um þau gilda alls konar lög og reglur til að reyna að hafa hemil á neyslu þeirra. Þó sótt sé að þeim sem neyta þeirra, sérstaklega þeim sem reykja tóbak, þá er fólk ekki gert sjálfkrafa að glæpamönnum með því einu að kaupa þau eða neyta. Mér finnst það athyglisverður og mikilvægur punktur. Ef neysla annarra efni væri lögleidd væri hægt að hafa eftirlit með neyslunni og setja hömlur á hana, og fíklum yrði gert auðveldara fyrir að athafna sig í samfélaginu og leita sér hjálpar, í stað þess að neyðast í raun til að vera neðanjarðar. Þetta myndi kippa fótunum undan neðanjarðarhagkerfinu, og já, ég held í alvöru að draga myndi úr glæpum.

Mér finnst alveg þess virði að íhuga þessa leið af alvöru.

Þarfagreinir, 26.9.2007 kl. 14:05

16 Smámynd: Anna

Vá! Þetta er greinilega þörf umræða og gaman að sjá hvað það eru margir sem eru tilbúnir fyrir breytingar, hvort sem þær eru í litlum skrefum eða stærri, takk fyrir öll svörin en hér eru helstu punktar sem ég vil koma að eftir lesturinn (afsakið langlokuna en ég vil endilega tjá mig meira um málið!):

Thelma og Brynjar : Í Bretlandi og víðar hefur verið farin sú leið að flokka fíkniefni eftir ‘alvarleika’ þeirra og árið 2004 minnir mig var kannabis t.d. fært niður um alvarleikaflokk eftir að rannsóknarnefnd á vegum breska þingsins komst að þeirri niðurstöðu að það að eltast við smáneytendur efnisins væri sóun á mannafla lögreglunnar og að fólk sem væri annars löghlýðið ætti ekki að þurfa að gjalda fyrir neyslu í sínu einkalífi með því að lenda á sakaskrá. Þessu er ég t.d. algjörlega sammála, ég vil að minnsta kosti sjá krafta lögreglunnar beinast að einhverju öðru en að gera 1-2 grömm upptæk hjá smáneytendum.

Pétur: Jú, unga fólkið er svo sannarlega markhópurinn fyrir e-töflur en markhópurinn verður einfaldlega til af því að dílerar hafa gott aðgengi að honum. Það er oft erfiðara fyrir ungling að verða sér úti um áfengi en e-töflu en hvernig á að breyta því? Mín tilgáta er sú að erfiðara sé að hafa eftirlit með dreifingu efnanna ef þau eru falin í undirheimunum sem verða til með núverandi fíkniefnalöggjöf. Hver er þín?!

Heiða: Takk fyrir linkið! Ég er nú ekkert endilega á því að það eigi bara að lögleiða allt draslið eins og það leggur sig, mér finnst þetta einmitt vera spurningin um að þeir sem leiðast út í fíkniefni þrátt fyrir allt geti haft sitt uppi á yfirborðinu og týnist ekki í undirheimunum, að hjálpa í staðinn fyrir að hegna…

Einar: Mér þykir ótrúlega vænt um að orðin mín skuli hafa ‘næstum því’ þau áhrif að þú skiptir um skoðun! En eins og ég segi þá tek ég nú ekki það djúpt í árinni að kalla eftir lögleiðingu allra efna heldur einmitt eins og þú segir að finna einhvern annan farveg fyrir þennan málaflokk og að skipta um aðferðir.

Benna: Takk kærlega fyrir þitt komment, það er ómetanlegt í umræðunni einmitt að heyra frá fólki sem hefur staðið í þessum sporum, ég hef skoðað bloggið þitt nokkrum sinnum og dáist að því hvað þú ert hreinskilin um þessi mál. Áfram þú!
Meðvirkir læknar eru einmitt oft að reyna að gera það sem þeir geta til þess að fólk þurfi ekki að fara út í alls konar ógeðfelldar aðgerðir til að fá sín efni. Eins og þú segir þá er þetta tvíeggjað sverð en í tilgátunni minni er lagt út frá því að að a) það verða alltaf til fíklar og b) ef það er hægt að bæta aðstæður fíkla með því að útvega þeim efnin ‘ofanjarðar’ þá ætti að gera það. Lögleiðing og/eða eftirlit er því alls ekki trygging fyrir því að fíklar fari eitthvað betur út úr sinni neyslu en eins og ég segi, það hlýtur að vera betra fyrir alla aðila þegar hlutirnir mega vera uppi á yfirborðinu.

Baldur: Í USA hefur verið hvað harðast gengið fram í ‘stríðinu’ gegn fíkniefnum. Afleiðingarnar eru þær að hærra hlutfall landsmanna en nokkru sinni fyrr situr í fangelsi vegna smáneyslu. Eftir að fangelsisvist lýkur er afar misjafnt hvort fólk kemst aftur inn í samfélagið því það er stór stimpill að vera fyrrverandi fangi og í mörgum tilfellum kemur fólk jafnvel forhertara út en það var þegar það fór inn. Því fleiri sem þetta kemur fyrir, því fleiri eiga erfitt uppdráttar í samfélaginu og því ekki að leyfa þessu fólki einfaldlega að hafa sína neyslu í friði á meðan það er ekki að ráðast á mann og annan eða gera einhvern fjandan annan af sér? Alla vega þegar um er að ræða smáskammta af ‘vægari’ efnum (sjá t.d. flokkun í Bretlandi hér).
Ég er svo aftur alveg sammála þér með að breyta fræðsluháttum í skólakerfinu, það er margt þar sem er hægt að laga og breyta til að koma í veg fyrir að krakkar álíti fíkniefni vera töff og mér finnst athyglisverð hugmynd hjá þér að spyrða þetta saman við umræður um sjálfsmyndina og forvarnir við þunglyndi og kvíða. Afar athyglisvert! Og já, ég held líka að við séum sammála um að manneskjulegasta leiðin sé sú árangursríkasta!

Jóna: Neysla unglinga hefur verið að aukast undanfarin ár því aðgengi þeirra að fíkniefnum er ótrúlega gott þrátt fyrir að það sé ólöglegt. Ég hefði kannski mátt orða það betur í pistlinum sem ég hef gert nokkrum sinnum í þessu svari, að ég er alls ekkert hlynnt algjörri lögleiðingu einn, tveir og á morgun, ég er hins vegar hrifin af litlum skrefum eins og hafa verið tekin í Bretlandi, Kanada og víðar því litlu skrefin koma manni líka á áfangastað, þótt það taki tíma. Það er nefnilega alveg rétt hjá þér að það er afskaplega erfitt að sjá fyrir hvað gerist við svona breytingar en með minni skrefum er hægt að hafa meiri stjórn á því í hvaða átt breytingarnar fara með samfélagið og fólki gefinn betri kostur á að aðlagast þeim.

Anna, 26.9.2007 kl. 15:07

17 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Það liggur í augum uppi að fíkniefnaneysla er heilbrigðisvandamál - alla vega eru það heilbrigðisstofnanir sem verða að taka á móti þeim sem missa fótana í neyslunni. Það væri mjög áræðið hjá stofnunum þessa lands að færa þennan málaflokk frá réttarkerfinu yfir í heilbrigðiskerfið - eigum við svo hugaða stjórnmálamenn? Að sjálfsögðu yrði það flókið og erfitt, tímabundið, en eftir áratug eða svo væri búið að ná utan um þetta.

Halldóra Halldórsdóttir, 26.9.2007 kl. 18:31

18 Smámynd: Lýður Árnason

Lögleiðing fíkniefna er óneitanlega kostur sem ætti að íhuga.  Gengi hins vestræna heims í þessum málaflokki er harla dapurt og fíklar í dag ofurseldir fólki sem allt gera til að viðhalda vandanum.  Auðvitað er lögleiðing fíkniefna ákveðinn ósigur en þó er það mín skoðun að ávinningurinn af viðurkenningu ríkjandi ástands taki fram þessum ósigri og leggi jafnframt grunn að nýjum, raunhæfum markmiðum.  Fíkniefnalaust Ísland árið 2000 endurspeglar ágætlega barnaskap stjórnmálamanna í þessum efnum.  

Fíkilar þurfa skjól og leiðbeiningu.   Með lögleiðingu fíkniefna getur heilbrigðiskerfið orðið sá segull sem til þarf, það athvarf sem snúið getur fíklinum til betra lífs án fíkniefna.  Lögleiðing fíkniefna leysir ekki allan vanda en hún getur grisjað fíkniefnafrumskóginn, gert okkur kleift að koma fyrr til skjalanna og þannig komið í veg fyrir alls kyns ófögnuð. 

Því segi ég: Lögleiðing fíkniefna er ekki endilega hinn endanlegi lykill en umræðan svo sannarlega bæði tímabær og ábyrg.   

Lýður Árnason, 29.9.2007 kl. 03:51

19 Smámynd: Sævar Einarsson

Góður pistill, núna vantar bara að einhver skrifi um ástandið í þeim löndum þar sem þetta er leyft, hvernig var ástandið fyrir lögleiðingu og eftir lögleiðingu.

Sævar Einarsson, 2.10.2007 kl. 00:17

20 Smámynd: Kári Magnússon

Snilldargrein!! og þörf umræða, sammála hverju orði.

Ég hitti eitt sinn mann sem hafði setið inni fyrir fíkniefnasmygl.  Ég spurði hann  hverjir  það  væru  sem  fjármögnuðu  kaupin, því að það liggur í augum uppi að sjúskaðir fíklar geta ekki lagt fram slíkar upphæðir? 

Hann sagði "ha ha ha, ég get ekki sagt þér það en fólk myndi fá áfall ef það vissi hverjir það eru því að sumir þeirra eru þjóðþekktir og hátt settir".  

Kári Magnússon, 4.10.2007 kl. 17:05

21 Smámynd: Jón Þór Ólafsson

Nákvæmlega! Frábær grein Anna.

Meðan eftirspurn er eftir fíkniefnum mun fólk redda sér þeim með einum eða öðrum hætti.

Eins og Lýður bendir á þurfum við ný og raunhæf markmið. Markmiðið hefur verið að losna við fíkniefnin nánast sama hvað það kostar og þó það skapi fíklum erfið lífsskilyrði þá er það nú bara fórnarkostnaður. Þeir sem segja að þetta sjá ekki að baráttan skyldi ekki vera gegn fíkniefnum, fíkiefni eru vandamál því þau valda fólki þjáningu svo baráttan skyldi vera gegn þjáningunni sem fíkniefnin valda, og fíklarnir eru ekki eitthvert fólk sem þarf að fórna, þeir eru manneskjurnar sem baráttunni var ætlað að bjarga.

Að svo mikil fjöldi fólks er svo óhamingjusamt að það þurfi að fara í vímu og verði fíklar er "einkenni" sjúks samfélags, og að gera lyfin (það er viðurkennt í læknasamfélaginu að fíkn er heilasjúkdómur) sem slá á einkennin ólögleg er ekkert annað en að setja plástur yfir sýkinguna sem grasserar og smitar samfélagið enn frekar ("pússerar" á unglingaböllum og sprautu nálar í sandkössum).

Nei! Við þurfum rífa plásturinn af og þrífa gröftinn í heilbrigðiskerfinu. Að veita fíklum þau lyf sem þeir þurfa, undir læknisumsjón á hreinum heilsugæslustöðvum og bjóða þeim að koma í afvötnun (því auðvitað er nóg fjármagn til þess þegar hætt er að sóa því í tollgæslu, löggæslu, dómskerfið og fangagæslu). Og á sama tíma að stunda forvarnir (það þyrfit ekki nema brot þess fjármagns sem myndi losna til að hafa magnaðar viðvarandi forvarnir).

Baráttar er í raun gegn Þjáningunni sem fíkniefnin valda og til að minnka hana stundum við Forvarnir og hjálpum fólkinu sem þjáist, bæði fíklunum og fjölskyldum þeirra, með því að halda einkennunum niðri með Lyfjum sem virka þar til sjúkningarnir (og vissulega eru fíklar sjúklingar) geta treyst sér að fara í meðferð.

Jón Þór Ólafsson, 4.10.2007 kl. 19:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Skoðanabloggið

Höfundur

Anna
Anna
Afar venjulega óvenjuleg manneskja.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • töggur
  • töggur
  • Algrímur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband