Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Opinber trúleysingi skrifar...

Ég gerði það loksins í dag.  Ég sagði mig úr “þjóð”kirkjunni og er nú skráð utan trúfélaga.  Þetta er eitthvað sem hefur verið á dagskránni hjá mér í mörg ár, einfaldlega vegna þess að ég er ekki trúuð og nýti mér ekki þjónustu kirkjunnar.  Þetta hefur þó hingað til ekki verið neitt stórmál fyrir mér, mér hefur bara einhvern vegin ekki fundist þetta skipta miklu máli en núna er ég endanlega búin að fá nóg.
Ég kann foreldrum mínum bestu þakkir fyrir að hafa skírt mig inn í kirkjuna, það var þeirra val og ég virði það en núna er komið að mér að velja. 

Þegar ég var yngri las ég biblíusögur af miklum móð (m.a. stórar, myndskreyttar bækur í bláu bandi sem heita Sögur biblíunnar og voru í 10 bindum) en ég las þær alltaf sem sögur, sumar þeirra finnst mér alveg trúlegt að hafi gerst að einhverju leyti í raun og veru, sérstaklega þær sem fjalla um venjulegt fólk sem sinnir kindunum sínum í ró og næði í afskekktum sveitum og túlkar svo náttúruatburði sem eitthvað guðlegt.  Restin af biblíunni er í mínum huga ekkert nema frumstæðar tilraunir manna til að útskýra náttúruleg fyrirbæri sem þeir gátu ekki skýrt öðruvísi þar sem vísindi voru einfaldlega ekki komin á það stig að það væri hægt.  Og ekki bara í biblíunni heldur flestum öðrum trúarbrögðum líka, hvað er Ásatrú annað en náttúruskýringar?!

Það sem sumir kalla Guð kalla ég eitthvað annað.  Það getur vel verið að það sé til eitthvað annað tilverustig eða eitthvað “æðra” okkur mannfólkinu en það verður þá bara að koma í ljós, ég tel mig einfaldlega ekki hæfa til að segja til um það, hvað þá að trúa einhverjum samansoðnum kenningum um það.  Fjöldi trúarbragða í heiminum er líka eitthvað sem fær mig til að efast; hvernig á maður að velja úr öllu kraðakinu það sem maður vill trúa á?  Af hverju vilja gyðingar ekki trúa að Jesú hafi verið Messías en kristnir menn eru sannfærðir um það?  Hvor hópur um sig telur sig hafa rétt fyrir sér en byggja trúna í raun á sannfæringum annarra, ekki neinum staðföstum sönnunum, enda eru þær ekki fyrir hendi.

En það er víst trúin í hnotskurn, ef maður er tilbúinn til að trúa á annað borð þá verður maður að trúa í blindni, láta almenna skynsemi að mestu leyti lönd og leið og rembast við að láta trúna passa inn í daglegt nútímalíf.  Mér finnst það þó nokkuð augljóst að hún gerir það ekki. 

Kirkjan (og þá á ég við kristna kirkju yfir höfuð; lúterska, kaþólska, rétttrúnaðar eða hvað sem þetta heitir allt saman) er í mínum augum einstaklega úrelt og skinheilagt fyrirbæri.  Þrátt fyrir öll þau mannúðar- og kærleiksboð sem hún heldur fram að séu megininntak kristinnar trúar eru mörg verstu illvirki sögunnar framin í nafni trúarinnar og mannvonskan sem þrífst hjá þeim sem breiða yfir sig hempu kirkjunnar og hvítþvo sig svo með syndaaflausnum og bænum er ótrúleg.  Krossferðirnar, misnotkun á börnum, ótrúlegt harðræði í klaustrum, munaðarleysingjahælum, meðferðarstofnunum og á öðrum stöðum þar sem trúræknu fólki hefur verið falin ábyrgð á þeim sem minna mega sín og svo ekki sé nú minnst á ástandið í heiminum í dag, stríð og misþyrmingar í nafni trúarinnar á alla kanta.  Allir hafa rétt fyrir sér og skjóta þess vegna á nágrannann af því að hann segir eitthvað annað.

Elska skaltu náungann eins og sjálfan þig stendur einhvers staðar.  Þeir sem eru sannkristnir fara svo sannarlega ekki eftir þessu því hjá hinum heittrúuðu er oft að finna mestu mannfyrirlitningu sem hægt er að sjá í þessum heimi; í þeirra augum eru allir úrhrök sem eru ekki eins og þeir.  Þeir eru hrokinn uppmálaður og líta niður á aðra fyrir að velja öðruvísi líf en þeir sjálfir.  Skilur þetta fólk ekki að það eru ekki allir eins?  Ef ég set þetta upp í eins einfalda mynd og ég get þá finnst sumum rauðar rósir fallegri en bleikar og sumum finnst bleikar vera fallegri en rauðar.  Það er ekkert rétt eða rangt í þessu samhengi, heldur bara eitthvað sem er ekki eins og þú.  Og það er allt í lagi að vera ekki eins og þú! 

Það sem fyllti mælinn hjá mér í dag var niðurstaða á kirkjuþingi um hjónavígslu samkynhneigðra.  Eina jafnan sem er rétt frammi fyrir guði þjóðkirkjunnar er víst tippi+píka=sönnástaðeilífu.  Þetta er svo mikil hræsni að það hálfa væri nóg.  Fyrir rúmum 2000 árum þegar biblían og fylgirit hennar voru skrifuð var samfélag manna allt öðruvísi.  Það voru örfáir sem kunnu yfir höfuð að lesa og skrifa og þeirra skoðanir lita auðvitað allt sem við lesum úr þessu í dag.  Við vitum ekkert hvert viðhorf almennings var áður en einhverjum datt í hug að skrifa þetta niður á blað.  Kannski voru allir bara í gúddí fíling með sína samkynhneigð eins og Grikkir til forna en svo kemur einhver sem titlar sig æðsta prest og með einu pennastriki gerir hann þetta að “synd.”  Nei, ég get ekki trúað því að eitthvað sem var sett á blað fyrir 2000+ árum síðan sé eitthvað sem á að lifa eftir í dag.  Við verðum þá alla vega líka að útskúfa örvhentum og hætta að borða svínakjöt...

Ég sá líka frétt þess efnis í dag að nú væri búið að fá fermingarbörn landsins til að “þýða” þekkt biblíuvers yfir á SMS mállýsku svo fólk gæti fengið þau send í gsm símann sinn.  Þetta sýnist mér vera veik tilraun kirkjunnar til að reyna að búa til einhverja hipp og kúl ímynd til að ná til fólks.  Vitiði hvað væri svo miklu meira hipp og kúl?  Að lifa í alvörunni eftir því umburðarlyndi sem prestar eru svo gjarnir á að tala um í ræðum sínum.  Að mismuna ekki fólki á grundvelli kynhneigðar.  Að bjóða alla velkomna í kirkjuna sem vilja tilheyra henni.  Líka homma og lesbíur. 
Í staðinn ætla þeir að  hrækja á yfirborðið og pússa það upp  en fyrir neðan fína, tæknilega yfirborðið er þetta ennþá íhaldssamasta og hatursfyllsta stofnun heims.

Kirkjan spyr ekki karl og konu sem leita til hennar hvernig kynlífi þau lifa og sér ekki ástæðu til að athuga hvort þau stundi t.d. BDSM kynlíf eða hvort þau hafi farið í threesome eða geri það einhvern tíma í annari stellingu en trúboðanum þrátt fyrir að losti sé synd.  Dauðasynd jafnvel.  Nei, samkynhneigðir eru þeir einu sem eru skilgreindir eftir þessari allra persónulegustu og innilegustu hegðun okkar manna og það er skömm að því að kirkjan skuli mismuna fólki á þeim grundvelli.

Svei þér þjóðkirkja, nú fékk ég nóg, ég hef engan áhuga á að tilheyra þeirri mismununar- og hatursstefnu sem þið berið á borð fyrir okkur...

P.s. ég er ekki sú eina því skv. því sem ég heyrði hjá starfsmanni Þjóðskrár sem tók við úrsagnareyðublaðinu mínu er búin að vera mjög mikil umferð hjá þeim í dag og síðustu daga af fólki sem segir sig úr kirkjunni.  Ég vona að það sé líka af ofangreindum ástæðum...


mbl.is Tillaga um hjónavígslu samkynhneigðra felld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Skoðanabloggið

Höfundur

Anna
Anna
Afar venjulega óvenjuleg manneskja.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • töggur
  • töggur
  • Algrímur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband