Færsluflokkur: Bloggar
5.12.2007 | 19:24
Þegar fólk veit ekki hvað það er að skrifa...
Nú hef ég tekið þátt í uppeldi barna í Ammríkunni og ætla því að leyfa mér að gera ráð fyrir að hún Heidi sé ekki með lifandi gullfisk í Tupperware boxi sem hún dregur upp í staðinn fyrir hringlu þegar barnið grætur. Í Bandaríkjunum er nefnilega til kex sem heitir Goldfish og er afar vinsælt sem snakk hjá ungum börnum og foreldrum þeirra og allir vita hvað átt er við þegar foreldrar tala um goldfish!
Er ekki kominn tími á einhvers konar verðlaun fyrir klúðurslegar þýðingar og orðalag hjá mbl?
Og þar fyrir utan, hver í ósköpunum er fréttin í þessari klausu? Að mæður þurfi að sjá til þess að börnin þeirra hafi allt til alls? Er þetta e.t.v. auglýsing fyrir OK blaðið? Eða fannst einhverjum bara ótrúlega fyndið að Heidi væri með gullfisk í töskunni (og misskildi þetta þarmeð all svakalega)?!
Þetta furðulega fréttamat ritstjóra fjölmiðla í dag er frekar sorglegt...
Með gullfisk í bleyjupokanum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.10.2007 | 19:19
Ó nei...
Stjórnarandstaðan á engar karamellur...
-
-
-
P.s. fyrir þá sem ekki fatta, þá er orðið töggur í þeirri merkingu sem SKK leggur í orðið notað í kk, et. Flestir nota kvk, ft myndina yfir litlu, þrílitu, álpappírsinnpökkuðu karamellurnar frá Nóa-Síríus.
Bloggar | Breytt 4.10.2007 kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.9.2007 | 19:17
Reynslusaga úr búðinni...
Vitiði... Ég fór út í búð áðan og það var útlendingur á kassanum. Ég bjóst auðvitað við því að viðbrögð mín (miðað við fréttaflutning síðustu daga) yrðu sjálfkrafa þau að fyllast ógeði, hrækja á hann, kalla á verslunarstjóra og krefjast þess að fá þjónustu á íslensku, jafnvel að strunsa út úr búðinni og keyra fleiri kílómetra í þá næstu.
Það kom mér því þægilega á óvart þegar ég týndi vörurnar einfaldlega upp á færibandið, náði mér í poka og rétti manninum kortið mitt með bros á vör!
Ótrúlegt alveg hreint!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.9.2007 | 12:23
Afleiðingar...
Á forsíðu Mbl er fjallað um Fáskrúðsfjarðarfíkniefnafundinn í alveg svakalega mörgum fréttum sem hlýtur að þýða að þetta er alveg svakalega merkilegt. O jæja, látum það liggja milli hluta en í einni fréttinni vakti þessi setning athygli mína:
Það er því ljóst að margir varpa öndinni léttar yfir því að mennirnir hafi náðst, enda um gríðarlega mikið magn að ræða sem aldrei kemst til íslenskra fíkniefnaneytenda. "
Afleiðingarnar af því að þetta kemst ekki til íslenskra fíkniefnaneytenda eru helstar þessar: framboð á markaði minnkar => verð hækkar =>aukin bíræfni í leiðum til að útvega pening eða annan gjaldmiðil fyrir efnum => fjölgun fíkniefnaskulda => aukin harka í innheimtu þeirra. Framundan er sumsé góssentíð fyrir handrukkara og aðra sem standa aðeins ofar hinum almenna neytanda.
Mér finnst það engin sérstök ástæða til að varpa öndinni léttar.
Ísland á aldrei eftir að vera fíkniefnalaust, reyklaust, offitulaust eða laust við nokkuð sem mannskepnunni finnst gott. The war on drugs" er ekki stríð gegn fíkniefnum, það er stríð gegn fólki og það er kominn tími til að flytja vígvöllinn frá dómsvaldinu og inn í heilbrigðiskerfið. Það að breyta um taktík er ekki merki um veikleika eins og yfirvöld virðast halda, það er bara svo augljóst að núverandi aðferðir virka ekki að það VERÐUR að grípa til annarra ráða. En fólk er svo heilaþvegið af áróðri og lygum (já, ég held því blákalt fram að áróður gegn fíkniefnum sé að stórum hluta lygar) að það kemst ekki framhjá sjálfu sér til að hleypa skynsamlegri aðferðum að. Synd og skömm. Á meðan ráðamenn og stærstur hluti almennings lemur hausnum við vegginn er fólk þarna úti sem hefur ekkert gert af sér nema að brengla boðefnaskipti í taugakerfi sínu. Á meðan það er í neyslu er það ofurselt duttlungum mislyndra manna, dílera og dólga, sem fer ekki vel með sálina. Ef það verður fyrir ofbeldi eða áföllum er erfitt að leita hjálpar því það er með rautt stimpilfar á enninu sem segir: GLÆPAMAÐUR. Og þessi stimpill lokar ansi mörgum dyrum sem væri mun betra að hafa opnar.
Tökum dæmi af stúlku sem ánetjast eiturlyfjum. Það kemur að því að hún á ekki fyrir skammti en fíknin er sterk. Hún fer að nota líkama sinn sem gjaldmiðil, lendir jafnvel í nauðgunum og barsmíðum og alls kyns öðrum niðurlægingum. Sjálfsmyndin segir henni að hún sé ekkert nema ómerkilegur fíkill, glæpamaður og hún endar brotin á sál og líkama og telur sér trú um að enginn muni hjálpa henni af því að hún er glæpamaður og miðað við sögur sem ég hef heyrt frá fyrstu hendi er það ekki af ástæðulausu (þrátt fyrir að það séu eflaust margir sem myndu koma henni til hjálpar þá er það samt mjög sterk upplifun í þessu ástandi að það sé ekki hægt að leita hjálpar í hinum 'venjulega' heimi). Hvernig væri hægt að koma í veg fyrir þetta mynstur?
Ég myndi vilja byrja á því að athuga hvort hún gæti nálgast efnið sitt annars staðar. Athuga hvort það skipti meira máli að hafa aðgengi að fíkniefnum ólöglegt og neðanjarðar (sem leiðir til aðstæðna á borð við þær sem lýst er hér fyrir ofan) eða að þeir sem verða fíkninni að bráð á annað borð geti athafnað sig ofanjarðar í samfélaginu án þess að verða fyrir niðurlægingu. Það er að segja meiri niðurlægingu en þeirri að vera ánetjaður fíkniefnum á annað borð. Ég hef samt heyrt þau rök að ef fíklar hefðu löglegt aðgengi að lyfjum þá væri engin hvatning fyrir þá að hætta. WTF?!! Heldur fólk virkilega að það sé bara tóm sæla að vera fíkill ef maður fær efnin sín? Að einu vandamál fíkla snúist um að ná sér í næsta skammt? Það er vissulega stór hluti af þeirra lífi en guð minn góður það er svo margt annað sem flækir lífið. Sérstaklega í flækjuheimi fíkniefna.
Ég vil lögleiðingu og eftirlit með fíkniefnum. Hana, ég sagði það! Hreinar nálar til þeirra sem þurfa á að halda og svo framvegis. En ég er bara lítil rækja í hafsjó stórfiska sem eiga fuuuuullt af peningum og hafa áhrif og völd í samfélaginu. Það eru þeir sjá um fjármögnun og innflutning efnanna, græða á því og sjá sér að sjálfsögðu hag í því að efnin séu ólögleg. Enda eru það alltaf einhver smásíli sem er stungið inn, þeim stóru er alveg sama um það því smásílin bíða í röðum eftir að fá að vera næst. Þeir sem fjármagna koma heldur aldrei beint nálægt neinu, þeir passa sig á því að skilja ekki eftir nein ummerki um veru sína í fíkniefnaheiminum.
Þetta eru utanað séð heiðvirðir bissnissmenn sem gefa góða ímynd útávið, gefa til góðgerðarmála og styrkja ýmis samfélagsleg málefni. Ég veit ekkert hverjir þeir eru en ég veit að þeir eru til og ég veit að þeir nota sín áhrif til að halda umræðunni í þeim farvegi sem hún er í núna. Styrkja jafnvel forvarnarverkefni og áróður því þeir vita að hann hefur lítil áhrif hvort sem er, nema auðvitað til að styrkja skoðanir þeirra sem segja bara: Drugs are bad, m'kay" (svo ég vitni í þekktan sjónvarpsþátt), án þess að hugsa meira um málið.
Þetta sást afar vel á dögunum þegar nokkrir menntaskólanemar skrifuðu grein þar sem fíkniefnaneytendur og efnin sjálf voru dregin sundur í háði. Fólk hafði ekki einu sinni fyrir því að lesa greinina, það las grein um greinina þar sem ákveðið sjónarhorn var sett fram, þetta sjónarhorn styrkti þeirra eigin skoðanir og því fannst því sjálfsagt að taka undir. En ekki að lesa greinina, nei nei, það er algjör óþarfi að skoða hlutina sjálfur ef það er einhver annar sem gerir það fyrir mann.
Þetta er að mínu mati eitt hættulegasta viðhorf einstaklinga í dag. Þessi tregða til að kynna sér hlutina og láta í staðinn nægja að vera mataður á þeim viðhorfum sem maður 'á' að hafa.
Eins og ég segi, fíkniefni eru og verða staðreynd en ég held að fræðsla á réttum forsendum og gott fordæmi þeirra einstaklinga sem mynda samfélagið séu mun meira virði en hræðsluáróður og fordómar gagnvart fíklum. Hugarfarsbreytingu strax, takk!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
23.7.2007 | 18:15
Klukk, klukkedí klukk klukk klukk...
Jæja. Kela datt í hug að ég ætti mér einhver dimm og djúp leyndarmál sem ég þyrfti að játa fyrir alþjóð en það eina sem þið fáið að vita er þetta hér:
1. Ég hef búið úti á landi. Það var ekkert sérstaklega gaman og ég sé ekki fyrir mér að það gerist nokkurn tíma aftur. En eftirá að hyggja var það svosem ágætt, stundum þegar eitthvað slæmt gerist þá hugsa ég með sjálfri mér; Æ þetta var leitt en það gæti verið verra, ég gæti verið ennþá á X-firði. Maður verður sko að sjá hlutina í samhengi!
2. Ég er afar innræn og einræn manneskja og mér hefur aldrei leiðst í eigin félagsskap.
3. Ég léttist um rúm 30 kíló án þess að stíga fæti inn í líkamsræktarstöð. Það tók tíma og það er meira eftir en ég er sátt!
4. Ég hef aldrei verið mikið fyrir sopann en ég hætti einu sinni að drekka áfengi í rúm 2 ár eftir að hafa vaknað upp í sérlega slæmu þynnkukasti, á þeim tíma gat ég varla fundið lykt af áfengi, þá var maginn kominn í hönk! Í dag drekk ég áfengi í hófi (eða sko aðallega hófum... ehehehehehehehe).
5. Ég á dásamlega fallegan og fjölhæfan páfagauk sem heitir Snúður og er með einn fót eftir slys (þó systir mín haldi því fram að hún sé búin að ættleiða hann) og svo vil ég líka meina að ég eigi nú nokkur hlutabréf í krúttukisanum Algrími (þó ekki ráðandi hlut). Myndin hér til hliðar er einmitt af honum Algrími þegar hann var bara pínupons, nú er hann stór og mikill unglingur og verður bráðum stór og feitur kisukall.
6. Hetjan mín og átrúnaðargoð heitir Joss Whedon, hinn sami og gerði þættina um Buffy, Angel og Firefly. Hann er ótrúlega fjölhæfur og hæfileikaríkur og segir magnaðar sögur. Ég á óskrifaða og hálfkláraða hugmynd að sögu sem gerist í svipuðum ævintýraheimi og hann bjó til í B&A en ég þori eiginlega ekki að skrifa hana því hann er búinn að setja svo háan standard!
7. Mér leiðist fólk sem fussar og sveiar yfir Séð og Heyrt en rífur það svo í sig í röðinni í Bónus. Ef þú lest blaðið, vertu þá að minnsta kosti manneskja til að viðurkenna það (ég skal samt viðurkenna að ég les það ALDREI! Þetta er sorp og viðbjóður og á ekkert erindi fyrir mín augu, ég les það ekki einu sinni á biðstofum). Ég þoli heldur ekki fréttamat ýmissa ritstjóra sem ýta yfir mann fréttum af Paris Hilton, Pete Doherty (ég heyrði loksins lag með hljómsveitinni hans um daginn en samt hafa fjölmiðlar séð til þess í mörg ár að ég veit allt of mikið um þennan mann), Beckhömunum og álíka fjaðurvigtarheilum.
8. Ég hlusta heldur aldrei á fm 957 og hef ekki gert í mörg ár. Ég lít ekkert sérstaklega niður á fólk sem hlustar á fm (og skilgreinir sig jafnvel sem hnakka) en ég vorkenni þeim píííííínu yfir að komast ekki lengra í tónlistarsmekk eða frumlegri hugsun.
Og já, ef það eru einhverjir þarna úti sem hafa ekki verið klukkaðir, consider yourselves klukked!!!Bloggar | Breytt 25.7.2007 kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.7.2007 | 02:08
Mótmælastaða?? Eitthvað??
Kæru Íslendingar, getum við ekki gert eitthvað? Getum við safnast saman á Lækjartorgi einn góðan veðurdag þegar störfum dómstóls lýkur og staðið þögul og niðurlút þegar dómarar fara heim? Eins og er er nauðgun skilgreind eftir öðru ofbeldi sem beitt er samhliða en ekki verknaðinum sjálfum, getum við ekki krafist þess að ofbeldisverknaður sé skilgreindur sem slíkur í lögum? OKKAR lögum??
Getur einhver tekið að sér að þrýsta á um breytingar á þessum meingölluðu skilgreiningum sem verða til þess að aðalatriði og afleiðingar falla í skuggann af tæknilegum atriðum sem falla að lögum en misbýður réttlætiskennd allra sómakærra manna?
Þegar dómar innihalda setningu á borð við: Þykir þetta allt styðja svo þann framburð hennar, að hún hafi ekki viljað eiga samræði eða önnur kynferðismök við ákærða, að óhætt sé að slá því föstu (breiðletrun mín) og samt er kveðinn upp sýknudómur á þeim forsendum að ákærði taldi sig hafa samþykki sem hann hafði í raun ekki, þá er kominn tími til að endurskoða forsendurnar.
Jú, það var kveðinn upp sýknudómur í þessu máli og hann er víst fullkomlega löglegur að því er virðist, því verður ekki breytt héðan í frá. En við getum breytt því fyrir næsta mál sem kemur upp með því að þrýsta á um endurskoðun þeirra laga sem dæmt er eftir. Við getum séð til þess að stúlkan, sem enn berst við afleiðingar þessara atburða, viti að okkur er ekki sama og að við erum ekki ánægð með það kerfi sem segir það vörn að vita ekki að maður olli skaða. Þau rök hætta yfirleitt að virka við 5-6 ára aldur, þá eru börn hætt að vera óvitar og vita að aðgerðir hafa afleiðingar og maður tekur afleiðingum gjörða sinna, jafnvel þótt þær séu ekki þær sem áætlaðar voru í upphafi.
Ég ætla að leyfa mér að vitna í annan bloggara, Baldur R. en hann birti þessa skoðun sína sem svör við bloggfærslum í gær (vona að honum sé sama): Þessi dómur gefur tilefni til að umorða 194. grein hegningarlaganna og senda dómendum skýrari skilaboð um merkingu hennar - nema Hæstiréttur snúi dómnum við, verði málinu áfrýjað. Að öðrum kosti verður ekki betur séð en að 194. greinin sé, að hluta til a.m.k., merkingarlaus, haldlaus og hreinlega steindauð.
Ekki leyfa héraðsdómi að setja fram leiðbeiningar um hvernig á að nauðga konum án þess að nokkrar afleiðingar verði og rísum upp fyrir fórnarlömbin. Viðbrögð okkar geta verið meiri huggun en sektardómur og mér finnst að við ættum að nýta okkur það vald...
P.s. ef einhverjum líst eitthvað á þessa hugmynd er alveg frjálst að afrita og líma þessa grein eða hluta hennar annars staðar á gagnvarpið (sem er frábær íslenskun á orðskrípunum internet og alnet!) eða koma innihaldi hennar á framfæri á einhvern hátt.
Sýknaður af ákæru fyrir nauðgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.6.2007 | 17:51
Nei takk, þú þarft ekkert að hugsa fyrir mig, ég get það alveg sjálf.
Ætli það sé einhver bloggari sem aðrir bloggarar blogga jafn mikið um og hann Jón Valur Jensson*? Hann er... eigum við ekki bara að segja spes?!
Í dag gat ég ekki setið á mér og kommentaði við færslu hans Brigðular forsendur vígorða homma og lesbía, aðallega vegna þess að ég (og fleiri) gat ekki lesið annað út úr greininni en að hann væri að líkja samkynhneigð við barnaníð og dýragirnd. Eftirfarandi er t.d. orðrétt úr færslu Jóns:
Loks má spyrja, hvort það sé rétt, að hvaða kynhneigð sem er sé ástæða til stolts. Fáeinir hafa það, sem kallað hefur verið afbrigðileg kynhneigð: til barna, til sado-masochisma, til sifjaspella, jafnvel til maka við dýr (eins og einhver agnarlítill minnihlutahópur bræðra okkar Dana mun farinn að stunda). Á fólk í alvöru að vera "stolt af [slíkri] kynhneigð og kynímynd"? Ef ekki, hvernig er þá hægt að setja þessi orð fram sem almenna reglu?
og einnig:
Þá gellur í mörgum, sem segja: "Þeim er það náttúrlegt og eðlilegt, hinum samkynhneigðu, liggur það ekki í augum uppi?!" -- En geta ekki þeir, sem hafa barnagirndina, sagt það sama, að þeim sé slíkt "eðlilegt", sem og ýmsir aðrir með annars konar hneigðir?
Þar sem Jón Valur þurrkaði svörin mín að sjálfsögðu út (hann dæmir ekki innihald, heldur útlit) þá hef ég ákveðið að endurbirta þau hér.
Komment númer 2 við þessa færslu hans var sumsé þetta hér:
_______
*Bwaahahahahahahahahah*
Fyrirgefðu, það hlægir mig bara óendanlega mikið þegar trúaðir fara að tala um að þeir vilji vísindalegar og náttúrulegar skýringar á einhverju, sbr. setningu þína: "Engin sönnun liggur fyrir um, að samkynhneigð sé meðfædd eða arfgeng"
Trú er hvorki meðfædd né arfgeng, né vísindalega sönnuð, eigum við ekki bara að losa okkur við hana?!
Og að líkja fullorðinni manneskju sem í skjóli fíknar og losta leitar á lítil, varnarlaus börn við aðra fullorðna manneskju sem stundar ábyrgt kynlíf með manneskju sem hefur til þess aldur og þroska er stórundarlegt.
_______
Eftir þetta kom að sjálfsögðu áminning um að innlegginu yrði eytt nema ég birti föðurnafn og ég svaraði með þessu:
_______
Ég kem ekki til með að birta eftirnafn mitt hér, orð mín standa og falla með sjálfum sér, ekki hver er á bak við þau. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þau verða að öllum líkindum tekin út en ég vona samt að þú lesir þau fyrst.
Ég verð samt að segja að fyrir mitt leyti er erfitt að lesa annað út úr skrifunum en að þú setjir samkynhneigð í sama flokk og barna- eða dýragirnd; að samkynhneigðir eigi annað hvort að fela sínar kenndir eða barna- og dýraníðingar að fagna sínum með skrúðgöngu.
Þarna ertu hins vegar að bera saman tvo ólíka hluti. Eins og ég bendi á þá eru samkynhneigðir fullorðnir einstaklingar sem leita eftir samskiptum við aðra fullorðna einstaklinga og þau samskipti fara fram með samþykki beggja aðila.
Barna- og dýraníð er nauðgun. Fullorðinn aðili notfærir sér líkamlega og andlega yfirburði til að svala fýsnum sínum án tillits til samþykkis fórnarlambs. Að sjálfsögðu eiga slíkir gerendur ekkert erindi í fagnaðargöngu og sálarmorð er ekkert til að vera stoltur af. Ég vona að þú sjáir muninn á þessu tvennu en ef ekki, geturðu þá sagt mér hvert fórnarlambið í samkynhneigðu sambandi er? Fyrir utan náttúrulega siðapostulana sem líta á slík sambönd sem persónulega árás á sig...
________
Það má náttúrulega deila um hversu málefnaleg svör þetta eru en ég vil ekki meina að þetta séu ósanngjarnar ásakanir eins og hann sjálfur skrifaði um ástæður útþurrkunarinnar, þetta er það sem ég les út úr skrifunum hjá manninum og hlýt að svara því þar sem þetta er pínulítið hitamál hjá mér.
En það má svo sem líka deila um hversu málefnalegur JVJ er í sínum færslum. Umræða verður nefnilega ekki alltaf málefnaleg þótt maður geti fært rök fyrir sínu máli og vitnað í þrjá mismunandi fræðinga og sjö skýrslur og hendi svo út kommentum frá þeim sem eru ósammála. JVJ virðist hins vegar líta á kommentakerfið sitt sem persónulega keppni í rökum og maður les í gegnum línurnar að það hlakkar í honum þegar hann svarar með vísun í fansí og smansí heimildir og talar niður til þeirra sem setja sínar eigin skoðanir bara beint á blað úr hausnum á sér. Þær eru þó a.m.k. manns eigin.
Þar er kannski bloggpersóna JVJ í hnotskurn, maður sem hefur ekki skoðanir nema þær hafi verið skrifaðar einhvers staðar fyrst. Þótt skriftirnar hafi farið fram fyrir 2000 árum í allt öðru samfélagi er það samt skrifað og þá er það rétt. Punktur.
Hvernig nennir fólk annars að eyða allri þessari orku í að hugsa fyrir aðra?
__
* Það skal tekið fram að þótt JVJ sé nafngreindur hér þá er það einungis vegna þess að hann kýs sjálfur að koma fram undir nafni á netinu. Gagnrýni mín er þó ekki byggð á hans persónu fyrir utan bloggheima, sem ég hef ekki hugmynd um hver er og er alveg sama.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.6.2007 | 18:28
N.N.
Nú er komið upp debatt um nafnlausa bloggara. Við virðumst vera annars flokks fólk með þriðja flokks skoðanir sem ekki er mark takandi á samkvæmt sumu sem maður les.
Ég er nafnlaust fyrirbæri á blog.is og ætla að vera það áfram, ekki vegna þess að ég þori ekki að koma fram undir nafni, ég blogga t.d. undir réttu nafni og mynd annars staðar og það er ekkert erfitt að komast að því bloggi, séu réttar leiðir farnar. Ég er heldur ekki hrædd við að vinnuveitendur eða aðrir hafi eitthvað út á mín skrif að setja. Ástæðan er einfaldlega sú að Moggabloggið er orðið að einhvers konar persónudýrkunaraltari þar sem enginn er maður með mönnum nema hann nái reglulega á vinsældar- eða haturslista, nema hvort tveggja sé.
Bæði í raunheimum og í bloggheimum er ég lítið fyrir að láta á mér bera, ég nenni ekki óþarfa samskiptum við fólk sem ég þekki ekki og hef engan áhuga á því að fólk "þekki" mig, bara af því að ég blogga. Af hverju ætti ég þá að setja nafn mitt hér? Þær skoðanir sem ég set fram eru mínar eigin og ég reyni að rökstyðja þær fyrir sjálfri mér eins og ég best get áður en ég ákveð að þær séu mínar. Það fer ekki stafur frá mér sem ég er ekki tilbúin að standa við (eða endurskoða, sé þess þörf) og þetta blogg er bara alveg jafn persónulegt og bloggið hjá nafngreindum bloggurum.
Ég get skilið það að nafnlaus skítkastskomment við færslur eru ömurleg en nafnlaus blogg eru allt annar hlutur. Það er manneskja af holdi og blóði hérna megin við skjáinn en það vill svo til að ykkar megin heitir hún Pannan, ekki Fjóla Sveinsdóttir. Eða hvað annað sem maður heitir nú í raunheimum...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.5.2007 | 17:17
Lítil saga...
Þegar ég var á öðru ári í menntaskóla byrjaði ég að læra félagsfræði, enda á félagsfræðibraut. Í einum tímanum fórum við í skemmtilegan leik sem gekk út á það að allir fengu ákveðinn fjölda af lego kubbum. Hver kubbur hafði ákveðið mörg stigagildi sem fór eftir lit hans og leikurinn gekk út á það að skiptast á kubbum og reyna að fá sem flest stig. Ef maður náði að hafa alla kubbana af einum lit skipti ekki máli hvernig liturinn var, það var gefið hæst fyrir að vera með alla eins, annars bara einföld samlagning. Leiknar voru þrjár lotur, eftir hverja var stigafjöldi hvers nemanda skrifaður upp á töflu og lagður saman í lok leiks.
En þá kom raunverulegur tilgangur leiksins í ljós. Hópnum var skipt í tvennt; þeir sem höfðu flest stig og þeir sem höfðu fæst og sagt að nú myndum við taka eina umferð í viðbót en hópurinn sem hefði fleiri stig fengi að ráða leikreglum og bæta við leikinn algjörlega eftir eigin höfði. Útkoman var sú að þau ættu að fá að byrja með alla hæstu kubbana, þau gætu fengið að skipta einum kubbi fyrir 2 o.s.frv (man þetta ekki nákvæmlega, það eru víst komin nokkur ár síðan ég var á öðru ári í menntaskóla). Minn hópur (með lægri stigin) tók þessu ekki þegjandi og fór í verkfall, neituðum að leika leikinn áfram og sökuðum þau um óréttlæti.
Það var auðvitað engin önnur umferð en hún átti heldur aldrei að vera. Tilgangur leiksins var að sjá hvaða ákvarðanir hópurinn sem á tekur og samkvæmt því sem kennarinn sagði brást það aldrei að sá hópur tók ákvarðanir sem komu einungis honum sjálfum til góða og reyndu að ná sem mestu af hinum hópnum.
Hins vegar hafði hún aldrei lent í því að fátækari hópurinn gerði uppreisn, ég er mjög stolt af að hafa tilheyrt honum!
Af hverju ætli þessi saga hafi komið upp í huga minn svo stuttu fyrir kosningar???
Viðbót: Ég rakst á þessa færslu sem sýnir á nánast grátlegan hátt að ákvarðanir ráðamanna eru ekki alltaf í samræmi við vilja og þarfir fólksins...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.4.2007 | 15:45
...og í framhaldinu skulum við skoða þetta:
Tekið af visir.is:
Það er ekkert sérstakt við þetta mál," segir Guðrún Ögmundsdóttir, aðspurð hvers vegna stúlkunni hafi verið veittur ríkisborgararéttur þrátt fyrir að hafa aðeins búið hér í stuttan tíma. Hún segir það í höndum Alþingis að taka fyrir undanþágur af þessu tagi og að það sé ekki einstakt að einstaklingar fái ríkisborgararétt þrátt fyrir að hafa aðeins búið hér í stuttan tíma. Ég minni bara á mál Bobby Fischers," segir Guðrún. Alls sóttu 38 manns um ríkisborgararétt til Alþingis en aðeins 18 hlutu náð fyrir augum nefndarinnar. Í Kastljósi var sagt frá því að einungis þrír þingmenn úr allsherjarnefnd hafi komið að ákvörðunartökunni, þau Bjarni Benediktsson, formaður nefndarinnar, Guðjón Ólafur Jónsson, varaformaður og Guðrún.
Guðrún segist ekki tjá sig um einstök mál sem fyrir nefndina koma og ennfremur að hún muni ekki málsatvik í þessu sérstaka tilviki. Nefndarmenn eru bundnir trúnaði og hún segir það ekki hafa tíðkast að færa þurfi rök fyrir því að þessar undanþágur séu veittar. Við höfum ekki þurft að gera það hingað til," sagði hún og bætti við að ástæður fyrir því að undanþágur séu veittar geti verið margvíslegar.
Það sem mér finnst athyglisvert í svörum Guðrúnar er það að hún vísar í mál Bobby Fisher sem réttlætingu á því að veita ríkisborgararétt í þessu tilviki. Leiðréttið mig ef ég fer rangt með en var það ekki gríðarlega umdeilt mál á sínum tíma? Var ekki þrýstihópur sem kallaði sig "Vini Bobby Fisher" sem hafði áhrif í því máli? Er þetta þá fyllilega sambærilegt og getum við vitnað í afgreiðslu Fishers þegar aðrir útlendingar sækja um ríkisborgararétt?
Einnig segir hún að það hafi ekki þurft hingað til að færa rök fyrir því að undanþágur séu veittar. Nú??! Hvernig er þá farið að í nefndinni? Eru nöfnin sett í hatt og dregið úr þeim? Ég efast nú um það en einhverjar ástæður hljóta að liggja að baki ákvörðun sem varðar hag einnar manneskju jafn mikið og ákvörðun um ríkisborgararétt. Hvað með þá sem er hafnað? Þarf að færa rök fyrir höfnuninni?
Ég bíð bara eftir því að Bjarni og Guðjón útlisti minnisleysi sitt í fjölmiðlum, þá væri sirkusinn loksins byrjaður fyrir alvöru, í staðinn fyrir að koma með svör við spurningum sem meirihluti þjóðarinnar virðist spyrja í dag (miðað við umræður á netinu, kaffistofum, í stigagöngum og já, bara alls staðar) þá á að reyna að grafa þetta.
Mér finnst eiginlega verst að ég skuli aldrei hafa kosið framsókn (Jónína er jú í framboði í mínu kjördæmi) svo þeir missa ekki atkvæðið mitt. Það er reyndar huggun harmi gegn að þeir skuli ekki hafa haft það til að byrja með...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Um bloggið
Skoðanabloggið
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar